Tuesday, March 18, 2008

Kaupa neikvæða raunávöxtun!

Lausafjárkreppan og ótti á mörkuðum tekur á sig ýmsar myndir þessa dagana. Þannig er t.a.m. ávöxtunarkrafa 5 ára verðtryggðra ríkistryggðra bandarískra skuldabréfa nú negatíf! Þetta þýðir að bandarískir fjárfestar sætta sig við minna en enga raunávöxtun.

Ávöxtunarkrafa bréfanna er -0,25% eða sem nemur hækkun verðbólgu mínus 0,25%! Af hverju? Væntanlega eru tvær megin skýringar á þessu. Í fyrsta lagi ótti fjárfesta sem leita nú með eigur sínar í skjól ríkistryggðra og seljanlegra eigna og í öðru lagi að verðbólguálag sambærilegra óverðtryggðra bréfa er talið óraunhæft og væntingar eru um aukna verðbólgu í Bandaríkjunum.

Til samanburðar er forvitnilegt að sjá að á Íslandi er hægt er að kaupa verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf með meðallíftíma 3 ár sem tryggja um 4,8% ávöxtun auk verðbólgu. Verðbólga á Íslandi er margfalt hærri en í Bandaríkjunum og fer varla mikið lækkandi alveg á næstunni.