Saturday, March 15, 2008

Hvert er krónan að fara?

Margir spyrja sig þessa dagana hverjir séu að selja íslenskar krónur og stuðla þannig að falli hennar? Er málið að verið sé að fella krónuna eða er þetta eðlileg þróun?

Gróflega áætlað hefur vaxtamunurinn s.l. 9 ár verið nálægt 7% sem þýðir t.d. að við höfum greitt útlendingum að jafnaði um 7% hærri vexti en þeim býðst í viðskiptalöndum okkar. Þetta nemur um 84% uppsöfnuðum mun. Gjaldeyris- og vaxtajöfnuður (e. fx and interest rate parety) segir okkur að gjaldmiðillinn ætti að gefa samsvarandi mikið eftir – eða 84%.

Meðalgildi vísitölunnar á þessu tímabili hefur verið 120 og samkvæmt þessu ætti gengisvísitalan að vera í 220 til að vega upp á móti miklum vaxtamun undanfarinna ára! Gengisvístalan er í 142 þannig að hún er enn langt frá 220. Economist endar flestar greinar sínar um hávaxtamyntviðskipti (e. carry trade) með því að segja að forsendur slíkra viðskipta ættu ekki að vera fyrir hendi og hljóta því að leiðréttast á endanum. Ef Economist hefur rétt fyrir sér sem og klassísk hagfræði þá gætum við verið að horfa á upphaf lækkunar.

Ef við snúum dæminum við þá hefði það átt að vera stórfrétt og hringja háværum viðvörunarbjöllum að hagur heillar þjóðar batnaði við það eitt að auka skuldir og fá lán hjá útlendingum? Það þótti hins vegar ekki frétt enda voru allir sælir og glaðir en var þetta ekki of gott til að vera satt? Of sterk króna kom til vegna tilflutnings lána, aukinnar lántöku erlendis og komu spákaupmanna og það er bein afleiðing peningamálastefnu Seðlabankans.

Það gagnast lítið nú að benda á aðra og reyna að finna einhverja blóraböggla. Nú er leiðrétting í gangi og upphæðirnar sem leiðrétta krónuna eru slíkar að einstakir bankar geta ekki haft mikil áhrif á þetta flæði. Staðan í “jöklabréfum” er 500 milljarðar, skuldir umfram eignir erlendis um 1.500 milljarðar. Þetta er háar tölur fyrir lítið hagkerfi. Hátt vaxtastig leiðréttist með gjaldfellingu gjaldmiðilsins segir klassísk hagfræði, undir það tekur Economist og ástæðurnar í takt við séríslenskar aðstæður eru útskýrðar í grein okkar Kára frá 2001 .