Wednesday, March 19, 2008

Hver blekkir hvern?

Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni Seðlabankastjóra á Vísi í dag að “án aðhalds Seðlabankans hefði verðbólgan farið úr böndum fyrir löngu síðan”. Vafalítið er það rétt að verðbólga hefði verið meiri undanfarin ár ef ekki hefði komið til að Seðlabankinn hefur haldið niðri verðbólgu með því að brugga allt of sterkt gengi með of háum vöxtum í allt of mörg ár. Þessi stefna hefur að vísu aukið á þenslu, sem er andstætt markmiðum Seðlabankans, og þar að auki búið til tímabundið góðæri sem ekki stenst eins og ítarlega hefur verið gerð grein fyrir.

Rök Ingimundar minna aftur á rök drykkjumanns. Það væri þá drykkjumaður sem væri kvalinn af þynnku eftir áralanga drykkju. Aðspurður hvort drykkjumaðurinn gæti ekki sjálfum sér um kennt um þynnkuna þá væri svar drykkjumannsins eftirfarandi: “Vissulega er þynnkan slæm núna og líkaminn bregst mér þar sem hann er illa í stakk búinn að vinna á henni - líffærin hafa farið of geyst og eru nokkuð skemmd eftir drykkju og hefðu betur farið sér hægar undanfarin ár. Hins vegar má ekki gleyma því að þrátt fyrir allt hefur mér tekist með mikilli sjálfstjórn og aga að koma í veg fyrir þynnku mörg undanfarin ár með því að slá ekkert af drykkjunni ("aðhaldið" sem bjó til of sterkt gengi)”. Síðan klikkir drykkjumaðurinn út með því að fullyrða ákveðinn: " ... þessi þynnka hefur ekkert, alls ekkert með drykkju mína að gera - vandamálið er bara að það er ekkert áfengi að fá lengur og það er ekkert sem ég ræð við enda ytri aðstæður".

Til að kóróna sjálfsblekkinguna stærir drykkjumaðurinn sig semsagt af árangri við að koma í veg fyrir timburmenni undanfarinna ára með stanslausri drykkju. Það eru sprúttsalarnir sem taka völdin af drykkjumanninum og koma í veg fyrir að hann geti haldið áfram að drekka og neita honum um meira áfengi (sambærilegt við t.a.m. spákaupmenn sem nú halda að sér höndum). Niðurstaða drykkjumannsins er semsagt að þynnkan sé öðrum að kenna og algerlega óháð drykkjunn - hún er afleiðing ytri afla sem hann ræður bara ekkert við ?!

Kannski líður drykkjumanni betur að horfa á eigin stöðu í þessu samhengi en hann blekkir varla aðra en sjálfan sig. Auðvitað væri drykkjumaðurinn maður af meiri ef hann hefði manndóm í að horfast í augu við eigin gjörðir, taka ábyrgð og vinna í eigin vandamálum. Ef hann kemst ekki yfir eigin sjálfsblekkingu þá væri það honum líklega fyrir bestu að leita sér hjálpar og spurning hvort hann þurfi ekki að fara í meðferð.