Sunday, March 2, 2008

Mjöður Seðlabanka Íslands

Árið 2001 vann ég rannsóknarskýrslu ásamt Kára Sigurðssyni hagfræðingi þar sem m.a. eru færð rök fyrir því af hverju peningamálastefna bankans gengur ekki upp. Ég ætla ekki að endurtaka þessi rök hér, en áhugasamir geta lesið skýrsluna og grein um málið en niðurstaðan var:

“ ... svigrúm fyrir vaxtamun er á þröngu bili gagnvart viðskiptalöndum ef yfirvöld vilja ekki að lántaka flytjist úr íslenskum krónum yfir í erlenda gjaldmiðla. Miðað við forsendur hérlendis má ætla að stýring gjaldmiðils með óhóflegum vaxtahækkunum sé þensluhvetjandi, auki gengisáhættu (í formi meira flökts) og setur hagkerfið í vanda þegar gengi gjaldmiðilsins byrjar að ákvarðast aftur af grundvallar efnahagsþáttum ..”

Nú sjö árum síðar og þegar "árangur" peningmálastefnunnar liggur fyrir er athyglisvert að lesa Rotary-ræðu eins þriggja bankastjóra Seðlabankans, Ingimundar Friðrikssonar, og rökin sem hann færir gegn því að hefja vaxtalækkunarferli. Hans rök eru að ef slakað yrði á markmiðinu um verðstöðugleika nú mun gengið lækka, verðbólga aukast og þá fer lítið fyrir stöðugleika.

Þessi rök minna óneitanlega á rök manns sem vill ekki hætta að drekka því að það mun bara hafa í för með sér timburmenn. Í því ljósi sér drykkjumaðurinn bara eina leið í stöðunni þ.e. að halda áfram að drekka. Slíkur maður mun á endum drekka sig til dauða enda þolir kerfið ekki álagið. Eru rök drykkjumannsins gild? Það fer eftir markmiðinu. Ef markmiðið er að drepa sig – já, ef ekki - nei. Flestir eru væntanlega sammála því að drykkjumaðurinn gerði best með því að hætta að drekka þrátt fyrir tímabundna timburmenn. Grunnforsendan er hins vegar að drykkjumaðurinn taki rökum.

Með hávaxtastefnu sinni hefur Seðlabankinn bruggað hættulegan mjöð, m.a. sterkari krónu en stenst miðað við undirliggjandi atvinnulíf. Landslýður hefur síðan drukkið mjöðinn ótæpilega undanfarin ár enda mjög freistandi. Mikill vaxtamunur og sí-sterkari króna hefur hvatt til lántöku í erlendri mynt og sterk króna eykur jú kaupmátt á sama tíma og grundvöllur útflutningsgreina og nýsköpunar hefur versnað. Seðlabankinn þrjóskast enn við og leggst gegn því að bruggaður sé nýr mjöður með því að lækka vexti. Lækkun vaxta getur þýtt veikari krónu, allavega til að byrja með. Kosturinn við slíkan mjöð er hins vegar að hann tryggir betur að landinn haldist edrú og skilyrði útflutningsgreina og nýsköpunarverkefna batna.

Eftir stífa drykkju þarf stundum að lifa við tímabundna timburmenn. Alveg á sama hátt og lausn drykkjumannsins er ekki áframhaldandi drykkja, þá er það ekki lausn á núverandi vanda að hækka vextina eða halda óbreyttum til að freista þess að halda í núverandi spákaupmenn og jafnvel að laða að fleiri til að styrkja gengið. Slík aðgerð er að fresta vandanum eins og gert hefur verið mörg undanfarin ár.

Skynsemi ætti að segja drykkjumanni að láta sig hafa tímabundna timburmenn og halda sig síðan frá drykkjunni … á sama hátt eru nú ágætar forsendur að hefja lækkunarferli og feta sig í átt að eðlilegum vöxtum og vara sig í framtíðinni á “Heurst-Euclid” áhrifum (sjá grein).