Monday, February 11, 2008

Sannleikurinn og endurtekningin

Við notum endurtekningu til að læra staðreyndir. Endurtekning leiðir til þess að við munum hluti betur og getum nýtt þá og kallað fram, jafnvel “án þess að hugsa”. Endurtekning og hvað við teljum vera satt og rétt leikur stór hlutverk í því hvernig við lærum og skynjum umhverfi okkar.

Þessi lærdómsaðferð gerir ráð fyrir að það sem endurtekið er, sé bæði satt og rétt. Endurtekningin gerir ekki ranga fullyrðingu sanna en röng fullyrðing, getur verið meðtekin og á hana sæst sem sanna, sé hún endurtekin nógu oft. Það er þekkt að í einhverjum tilvikum þá er þessi aðferð vísvitandi notuð til að búa til “sannleika” úr lygi. Rökfræðilega er það auglóslega ekki hægt enda er lygi áfram lygi alveg sama hvers oft sú lygi er endurtekin. Rök og skynsemi annars vegar og mannshugurinn hins vegar, eiga bara ekki alltaf samleið.

Áhrif endurtekningarinnar eru löngu þekkt sbr. fjölda rannsókna og frægra tilvitnana bera með sér. Nietzsche líkti t.a.m. “sannleikanum” við endurtekningu. Samkvæmt Nietzsche var sannleikurinn afleiðing einhvers sem var endurtekið mjög oft.

Fjöldi rannsókna hefur einnig sýnt framá að tilfinningar hafa áhrif á skynjun okkar á staðreyndum og því sem satt og skynsamlegt er. Þannig skiptir máli hver segir frá og þó svo að við treystum ekki eða efumst um það sem sagt er í fyrstu þá breytist það við endurtekningu frá yfirvaldi eða aðila sem við lítum upp til. Endurtekning slíkra aðila hefur meiri þýðingu en annarra.

Þá er endurtekningin alþekkt vopn í markaðsfræði til að hafa áhrif og fá fólk til að trúa því að það þurfi að eignast eitthvað. Í stjórnmálum er vopn endurtekningarinnar notað miskunarlaust.

Mér varð raunar hugsað til þessa þegar mér var bent á ræður Biskupsins yfir Íslandi og predikana almennt hvort sem það eru bænastundir fimm sinnum á dag eða messa einu sinni í viku í kirkjum heimsins þar sem endurtekningin ræður ríkjum.

Amen!