Monday, February 11, 2008

Umburðarlyndi Biskupsins

Ef eitthvað er endurtekið nógu oft, þó svo að það sé rangt, þá er hættan sú að það verði tekið sem sannleikur. Athygli mín var nýlega vakin á endurteknum boðskap í ræðum Biskups Íslands sbr.:

“Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa. ... Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.”


Boðskapurinn er nokkuð undarlegur. Býður einungis hatur og dauði þeirra sem trúa ekki á “hina einu sönnu og réttu trú”? Er trúin grundvöllur siðferðis og mannréttinda en ekki öfugt?

Siðferði, kærleikur og manngæska er ekki grunvallað á trú og hvað þá einni trú - trú biskupsins. Engin trú getur gert tilkall til einokunar á gildum sem byggja á þessum þáttum. Trúin er ekki grundvöllur siðferðis. Siðferði er hins vegar grundvöllur ýmissa trúarbragða. Á þessu er mikill munur. Mismunandi trúarbrögð, trúaðir, efasemdarmenn og þeir sem hafa enga trú geta hins vegar byggt gildi sín á siðferði, kærleika og manngæsku.

Það er vandséð að Biskup Íslands boði kærleika í ræðum sem þessum enda fer lítið fyrir umburðarlyndi og virðingu fyrir skoðunum annarra. Hins vegar, með því að endurtaka þetta nógu oft í ræðum gætu einhverjir farið að trúa þessu og þannig úthýsir þessi endurtekni boðskapar biskups m.a. umburðarlyndi.