Sunday, December 2, 2007

Er lausn Afríku að hunsa ráð Vesturlanda?

“Vandamál Afríku er ekki peningaskortur heldur vangetan að nýta hugvit Afríkumanna” eða svo segir forstjóri “The African Executive business magazine”. Ögrandi fullyrðing? Ekki mjög svo með hliðsjón af forsíðufrétt New York Times í dag. Malaví, sem síðustu 20 ár hefur verið meira og minna ölmusuþjóð, fæðir í dag ekki bara eigin þjóð heldur einnig nágrannaríkið Zimbabawe.

Í ár selur Malaví meira korn til hjálparátaks SÞ en nokkurt annað land í suðurhluta Afríku og barnadauði vegna hungurs hefur stórlega dregist saman. Hvað gerðist eiginlega? Hverju má þakka þessar stórstígu framfarir allt í einu?

Síðustu 20 árin hefur Alþjóðabankinn og ýmsar efnaðar þjóðir, í krafti neyðarhjálpar, skilyrt hjálp við Malaví, að landið lúti lögmálum markaðarins. Þannig hefur opinber niðurgreiðsla til landbúnaðar verið takmörkuð eða bönnuð. Slíkt samræmist ekki hinu opna kapítalíska hagkerfi. Þessum ráðum er þröngvað upp á Malaví á sama tíma og Vesturlönd niðurgreiða stórlega eigin landbúnað.

Árið 2005, þegar Bingu wa Mutharika, nýkjörinn forseti Malaví, stóð frammi fyrir miklum uppskerubresti, ákvað hann að fylgja fordæmi Vesturlanda en hunsa hins vegar ráðleggingar þeirra og hóf að niðurgreiða áburð til bænda. Niðurstaðan er að í ár er uppskera landsins meiri en þjóðin þarfnast og skilar þar að auki útflutningstekjum.

Malaví dæmið, sýnir í hnotskurn nokkra hræsni Vesturlanda gagnvart Afríku þar sem orð og gjörðir fara ekki saman. Vesturlönd fara fram og þröngva eigin sjónarmiðum upp á þjóðir Afríku, í krafti neyðaraðstoðar og afls Alþjóðabankans, á sama tíma og sömu sjónarmið eru hunsuð í bakgarði Vesturlanda.

Hvernig væri að láta orð og gjörðir fara saman sem og ábyrga ráðgjöf og afleiðingar. Hvernig væri að virkja hugvit þjóða Afríku í stað þess að fara fram og telja að Vesturlönd viti best hvernig leysa skal vandamál Afríku. Fyrir áhugasama um þetta málefni þá er bókin “White mans burden, Why the West's Efforts to Aid the Rest Have Done So Much Ill and So Little Good” áhugaverð lesning.