Wednesday, November 7, 2007

Eru Tíbetar eins og annað fólk?

Fyrir láglendisveru eins og mig þá reyndi það nokkuð á að aðlagast lágum þrýstingi og minna súrefnisinnihaldi í andrúmslofti í göngu upp að grunnbúðum Everest sem liggja í um 5.300 metra hæð yfir sjávarmáli. Hvernig má það þá vera að heilu þjóðirnar kunna vel við sig í þessum aðstæðum, s.s. íbúar Tíbets?

Í nýlegri rannsókn, sem segir frá í Sciantific American, á Tíbetum kom í ljós að Tíbetar eru einfaldlega ekki eins og annað fólk. Í téðri rannsókn kom í ljós að leyndardómur aðlögunarhæfni þeirra felst í blóði þeirra og að slag- og háræðar þeirra eru sverari en þeirra sem búa nær sjávarmáli.

Raunar er munurinn svo mikill að þeir innbyrða sama magn súrefnis á hásléttu Tíbets og við láglendisverurnar innbyrðum við sjávarmál. Blóðflæði hjá Tíbetum er tvöfalt í samanburði við viðmiðunarhóp á láglendi.

Talið er að þjóð Tíbeta á “þaki heimsins” megi rekja 20.000 ár aftur í tímann og á þessum tíma virðist líkami þeirra hafi þróast með þessum ótrúlega hætti í takt við súrefnissnautt andrúmsloft á hásléttunni.

Ég spyr þá bara – verða þeir ekki “láglendisveikir” þegar þeir koma niður til byggða?