Tuesday, July 10, 2007

Sokknar eyjar og íslenskar kartöflur í BABEL II

Enn með stírur í augum í morgun las ég fyrirsögn á mbl.is “Byrjað að taka upp kartöflur á morgun”. Ég hélt að sjálfsögðu að ég væri enn í draumaheimum enda gat þetta vart verið helsta fréttin af innlendum vettvangi á mbl.is. Eftir kaffisopa og endurfrískun (e. refresh) síðunnar þá hafði ekkert breyst - semsagt kartöflur eru málið. Hmm .. jæja ... þá er lífið á eyjunni fögru bara eins og í draumi og allt í himnastandi. Varla mikið að gerast þar fyrst að þetta er helsta fréttin af innlendum vettvangi.

Áhyggjulaus af ástandinu á Íslandi fór ég yfir aðra miðla og rakst þá á sérlega athyglisverða fréttatilkynningu frá Sameinuðu Þjóðunum. “Fundur fulltrúa 30 eyjaskeggja sem standa frammi fyrir þeirri staðreynd að í auknu mæli munu eyjur þeirra hverfa undir sjó vegna hækkandi sjávarstöðu haldinn á St. Lucia”. Þar höfðu menn litlar áhyggjur af kartöfluuppskeru heldur því að beitar-, ræktar- og íbúðarlönd eru að sökkva. Hvernig á að standa að fólksflutningum, semja við önnur ríki að taka við fólki o.s.frv. Sérlega praktískt fólk!

Ólíkar fréttir? Í sjálfu sér ekki enda hugsanlega verið að ræða afleiðingar sama fyrirbærisins þ.e. loftlagsbreytinga. Minnir raunar á hina geysigóðu mynd síðasta árs, BABEL, þar sem ólík myndskeið frá ólíkum löndum og heimsálfum, sem í upphafi virtust ekki eiga ýkja margt sameiginlegt, mynduðu eina samfellda sögu sem bundin var saman af gjafariffli. Morgunfréttirnar hjá mér frá mismunandi miðlum eru vissulega ólíkar og misalvarlegar en bundnar saman af einu máli ... loftlagsbreytingum.

En aftur að fréttatilkynningunni og praktísku eyjaskeggjunum ... þar var ennfremur ritað að talið er að sjávarborð geti hækkað um allt að einn metra á næstu 50 árum. Einn metra á 50 árum velti ég vöngum yfir afdrifum margra eyja og þjóða. Ég ákvað því að rifja þetta aðeins upp. Það skal upplýst að þessi upprifjun er svo sem ekki bara vegna umhyggju og samkenndir með eyjaskeggjunum heldur hefur smá kapítalístíska egó-sjálfhverfa skírskotun þar sem ég hef nú alltaf verið veikur fyrir sjávarlóð. Hér er smá samantekt staðreynda.

Sjávarborð hefur hækkað um 130 metra frá síðustu ísöld fyrir 18.000 árum. Megnið af hækkuninni var komið fram fyrir 6.000 árum en síðustu 3.000 árin hefur sjávaryfirborð haldist mjög stöðugt fram undir upphaf síðustu aldar er það tók að hækka (sjá hér og hér).Ef Grænlandsjökull bráðnar þá verður til vatn sem myndi hækka sjávarborð um 7,2 metra. Ef ísinn á Suðurskautslandinu bráðnar þá verður til vatn sem samsvarar 61 metra hækkun sjávar. Nýlega lét einn fremsti vísindamaður Bandaríkjanna í ljós þá skoðun að ef ekki yrði breyting á þá væri 4 metra hækkun sjávar á þessari öld ekki ósennileg.

Svona í þessu ljósi þá hugsa ég að ég fresti frekari pælingum um sjávarlóð enda vart fýsileg langtímafjárfesting og kannski að huga frekar að húsbáti. Og fyrir Brad Pitt og félaga í BABEL þá er þetta efni í BABEL II. Sé fyrir mér ólík myndbrot af fólki og heilu þjóðunum að yfirgefa eyjar vegna hækkandi sjávarstöðu, fögnuður á Íslandi vegna góðrar kartöfluuppskeru, pælingar fasteignakaupandans yfir sjávarlóðinni sem hann langar í en er bara svo léleg langtímafjárfesting og síðan er hægt að bæta við myndbrotum frá stríðinu í Darfur, hungursneyð í Afríku, hagsmunagæslu og afneitun Bush o.s.frv. en allt bundið saman af einu máli ... loftlagsbreytingum.

Snilld – eða hvað?