Monday, July 23, 2007

Norska fangaeyjan Ísland

Norska bókmenntaelítan komst nýlega að því að Völuspá og Heimskringla Snorra Sturlusonar væru tvö bestu bókmenntaverk Norðmanna! Samkvæmt Norðmönnum var Snorri Sturluson því Norðmaður alveg á sama hátt og þeir eigna sér Leif Eiríksson.

Norðmenn hafa lengi verið mér sem ráðgáta og sannkölluð áskorun að skilja. Hvernig í ósköpunum geta þeir verið haldnir slíkri söguvillu? Ég greip nýlega tækifærið þegar ég hitti Norðmann á ferð hér í Bushlandi og spurði hann út í þessa söguvillu Norðmanna og hvernig þeir gætu eiginlega haldið því fram að menn sem hefðu fæðst á Íslandi, og jafnvel átt fjölda íslenskra forfeðra, væru Norðmenn?!

“Ísland”, sagði hann nokkuð hugsi og hélt svo áfram, “svona í ofureinfaldaðri mynd þá lít ég á þetta þannig að í raun hafi Ísland verið nokkurs konar fangaeyja okkar Norðmanna hér áður og fyrr.” Síðan hélt hann áfram, “jú sjáðu til, þeir sem komust í kast við lögin í Noregi, þeir flúðu til Íslands í nokkurs konar útlegð, enda varla val nokkurs heilvita manns, að fara til þessa varla byggilega lands frá Noregi, þar sem Noregur hefur margfalda landkosti á við Ísland. Síðan þegar þessi hópur útlægra Norðmanna gafst upp á því að stýra sér sjálfur og eftir nokkur hundruð ára vosbúð og harðindi þá leitaði hópurinn eftir því að vera tekin í sátt í Noregi og fá að verða aftur hluti af konungsdæminu ... sem við samþykktum ... enda Norðmenn eins og við!”

Þetta er vægast sagt sérstök söguskýring ... en mér var jafnvel létt. Norðmenn eru þá kannski eftir allt saman bara svona ósköp venjulegt fólk. Altjént láta þeir viðhorf sitt ráðast af sögum en ekki staðreyndum. Sögur er jú oft skemmtilegri áheyrnar en staðreyndir og ekki síður líflegar og krassandi sögur byggðar á frjálslega túlkuðum staðreyndum. Þannig má búa til margar og ólíkar og jafnvel mótsagnakenndar sögur en með óvéfengjanlegu sögulegu ívafi allt eftir því sem hentar málstað hvers og eins.

Í réttarsal hér í Bushlandi eru menn beðnir um að segja, sannleikann, allan sannleikann, og ekkert nema sannleikann ... enda ef einhverju af þessu þrennu er sleppt þá er oft hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er, t.d. því að Ísland hafi í raun verið norsk fangaeyja!