Sunday, July 1, 2007

Suðið og lík við hestaheilsu

Í dag eru 10 ár liðin frá því að Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong. Á þeim tíma skorti ekki neikvæðar spár um framtíð borgarinnar svo sem Fortune greinin frá 1997 "The Death of Hong Kong" ber með sér.

Þegar ég var á ferð um Hong Kong nýlega þá gekk ég ekki um neina draugaborg – síður en svo. Viðskiptalega blómstrar borgin sem aldrei fyrr og andrúmsloftið og mannlífið virtist ekki kraftminna og jákvæðara en í þeirri Hong Kong sem ég kynntist fyrst fyrir tæplega 20 árum síðan þó borgin sé breytt. Lík Fortune manna er semsagt við hestaheilsu.

Í tengslum við þetta og á göngu nýlega var mér hugsað til óþurftar úrtölumanna og almennrar neikvæðni þar sem ég naut þess að ganga um borgina með heyrnatól sem útilokar suð.

Heyrnatólið eyðir suði og gerir manni enn frekar kleift að njóta göngu um New York og upplifa fjölbreytileika mannhafsins, asann, ys og læti borgarinnar á sama tíma og maður velur sitt viðfangsefni til að hlusta á eða bara nýtur þess að vera til í þögninni . Ég sá borgina í alveg nýju ljósi svona laus við allt suðið.

En hvað með suð sí-neikvæðni og sí-úrtölumanna? Væri ekki indælt að geta skellt upp heyrnatólum sem sía í burtu slíkt suð. Ég sé þetta alveg fyrir mér á þessum iPhone og iPod tímum þar sem Steve Jobs tilkynnir um nýja iAm heyrnatólið. Heyrnatól sem síar í burtu neikvæðni – “I hear a bright future – therefore I am (iAm)”.

Þangað til þurfum við líklega bara að velja þá sem við umgöngumst og passa okkur sjálf á suðinu.