Thursday, July 5, 2007

Hagsmunaárekstur þjóðar og einkavædds hers

Samkvæmt grein í LA Times í gær greiðir bandaríska ríkið laun fleiri aðila, í gegnum verktöku einkafyrirtækja í stríðinu í Írak, en sem nemur fjölda bandarískra hermanna í Írak. Þannig er talið að yfir 180.000 óbreyttir borgarar séu á launum vegna verktöku einkafyrirtækja en fjöldi bandarískra hermanna er 160.000.

Einkavæðing stríðsrekstur í þessu mæli vekur upp ýmsar spurningar. Fer slíkt t.d. saman við þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna, hagsmuni að lágmarka skaða af stríðinu, afmarka átökin og enda sem fyrst, draga úr líkum á því að Bandaríkjamenn dragist inn í fleiri stríð og umfangsmeiri stríðsrekstur og stuðli ekki að frekari ófriði í heiminum?

Einkarekstur, hvort sem er í stríði eða annars staðar, snýst um að hagnast þegar öllu er á botninn hvolft. Rekstrarumhverfi þessara einkafyrirtækja er því hagstætt þegar það er stríð og ófriður. Því meiri ófriður og fleiri stríð því betra. Að sama skapi er friður jú ávísun á taprekstur og gjaldþrot fyrir einkafyrirtækin sem taka að sér vinnu í stríði. Það er því augljóst að hagsmunir þjóðar og einkarekins hers fara ekki saman.

Það er því umhugsunarefni að horfa upp á það að það er verið að auka einkarekstur í stríðinu í Írak og ekki síst þar sem framganga og vinna einkageirans í stríðinu hefur bein áhrif á friðarhorfurnar. Bein áhrif á friðarhorfur út frá sjónarhorni áhorfenda en út frá sjónarhorni einkavædds hers eru þetta bein áhrif á rekstrarumhverfið, hagnaðarvonina og rekstrarniðurstöðuna.