Wednesday, June 27, 2007

Alþjóðabankinn fjárfestir í Blackstone?

Í dag greindi Forbes tímaritið frá því að kínversk stjórnvöld ætla sér að setja 200 milljarða bandaríkjadala í sérstakt fjárfestingafyrirtæki sem er ætlað að fjárfesta peningaforða landsins sem er geymdur erlendis. Þetta er viðleitni Kínverja að ávaxta betur þá 1.200 milljarða dala sem geymdir eru sem peningaforði erlendis og hefur hingað til aðallega verið varið til fjárfestinga í bandarískum ríkisskuldabréfum sem bera lága vexti. Þessi peningaforði eykst hröðum skrefum enda er mikill afgangur af viðskiptum Kínaverja við útlönd.

Nú er raunar svo komið að ekkert land í heiminum hefur meiri peningaforða erlendis en Kína. Í greininni kom fram að hið ríkisrekna kínverska fjárfestingafélag hefur þegar varið hluta af fénu, eða þremur milljörðum dala, til kaupa hlutabréfa í nýlegu útboði fjárfestingafélagsins Blackstone (nyse: BX).

Þessar fréttir undirstrika vel hvað Kína er að breytast hratt og raunar svo hratt að það virðast ekki allir átta sig á því. Þannig má t.d. lesa í ársskýrslu Alþjóðabankans að Kína er stærsti einstaki lántakandi bankans! Alþjóðabankinn sérhæfir sig m.a. í aðstoð við þróunarríki með því að veita hagstæð lán og sum vaxtalaus.

Þarf Kína, sem á núna stærsta varasjóð heimsins og var að fjárfesta fyrir 3 milljarða dala í hlutabréfum í Blackstone, virkilega mest á niðurgreiddri aðstoð Alþjóðabankans að halda - má þá ekki bara segja að Alþjóðabankinn sé óbeint að fjárfesta í Blackstone en Kínverjar njóta ávinningsins !?