Thursday, June 28, 2007

Líffræðilegur launamunur?

Í nýrri rannsókn HR var sýnt fram á hvernig viðhorf karla og kvenna eru mismunandi til launakrafna eftir því hvort launakrafan er frá karli eða konu. Þessi rannsókn er merkileg fyrir þær sakir að hún fjallar um kynbundinn launamun (en ekki “óútskýrðan”) og sýnir fram á að hjá körlum jafnt sem konum er til staðar viðhorf sem mismunar körlum og konum launalega. Þegar þetta liggur fyrir þá er eðlilegt að spurt sé af hverju stafar þetta viðhorf? Magnús Þór Torfason benti á umræðu í Columbia háskólanum í BNA í ágætri grein um efnið þar sem bent er á að viðhorf til greiðvirkni er misþakkarvert eftir því hvort karl eða kona á í hlut. Aftur spurning um viðhorf!

Göngum út frá niðurstöðu rannsókna og viðurkennum að viðhorf okkar til karla og kvenna er mismunandi og að það hefur áhrif á launin - hvað er þá til ráða? Fyrsta skrefið er að skilja ástæðuna. Fyrir nokkrum árum skrifaði Andrew nokkur Sullivan stórskemmtilega grein þar sem hann tekur saman rannsóknir um karlhormónið testesterón og nokkrar afleiðingar þeirrar staðreyndar að karlmenn hafa u.þ.b. 20x meira af því en konur. Testesterón er ekkert blávatn og hefur mikla virkni og er m.a. notað í læknisfræðilegum tilgangi m.a. gegn þunglyndi.

Testesterón hefur áhrif á skapgerð og þar með hvernig karlar haga sér. Það er staðreynd að mikill meirihluti ofbeldismanna eru karlmenn og þeir eru í miklum meirihluta fanga heimsins enda almennt árásarhneigðari en konur. Um 98% þeirra sem hljóta dauðarefsingu eru karlar. Rannsóknir hafa sýnt að "karlinn" í lesbískum samböndum hefur að jafnaði meira magn testesteróns en "konan" í sambandinu. Mauradrottningin stýrir og drottnar yfir karlmaurum og viti menn - hún hefur meira af testesteróni en karlmaurinn. Ef tveir menn horfa á fótboltaleik þá eykst framleiðsla testesteróns hjá þeim sem heldur með sigurliðinu (og hann "færist í aukana") en framleiðslan dregst saman hjá þeim sem heldur með tapliðinu (hann "dregur sig í hlé").

Oft er sagt að eldri karlkyns stjórnendur sýni meiri þroska og yfirvegun en yngri karlkyns stjórnendur sem missa frekar stjórn á skapi sýnu. Tengist það þeirri staðreynd að framleiðsla testesteróns er í hámarki um tvítugt en eftir það minnkar framleiðslan jafnt og þétt? Áhrif testesteróns eru staðreynd og fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á þessi áhrif. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að testesterón hefur einnig áhrif á keppnisskap og um hvað snýst launabarátta? Baráttu og samkeppni um hærri laun! Sullivan orðaði þetta vel “Men and woman are not created equal. So let’s accept it and move on”.

Við erum ekki bara ólík á yfirborðinu heldur líffræðilega mjög ólík sem hefur áhrif á þætti svo sem lundafar, skap, hegðun o.fl. sem aftur hefur áhrif á það hvernig við berum okkur að og umgöngumst annað fólk sem aftur hefur áhrif á það hvernig annað fólk upplifir okkur og þar með mótar viðhorf annarra til okkar sem aftur (sbr. téðar rannsóknir) hefur bein áhrif í launaumslagið. Það að reyna að koma á jafnrétti án þess að skilja afleiðingar líffræðilegs munar okkar er ekki líklegt til árangurs. Þannig gætum við allt eins krafist jafnréttis á öllum sviðum og það er ekki endilega skynsamlegt. Viljum við fjölga konum í fangelsum eða fjölga dauðadómum meðal kvenna til jafns á við karla - varla.

Launajafnrétti er eftirsóknarvert en verður ekki tryggt varanlega nema skilja hvað liggur að baki viðhorfum sem mismuna körlum og konum. Á því þarf að vinna og skref í þá átt er að viðurkenna að "líffræðilegur" launamunur er einn hluti af skýringunni. Líffræðinni breytum við ekki en við getum breytt leikreglunum.

Það að neita að viðurkenna þennan veigamikla líffræðilega mun og afleiðingar hans á viðhorf er eins og að setja kíkinn fyrir blinda augað, horfa til framtíðar en sjá enga lausn enda erum við þá jafnblind og áður.