Tuesday, June 26, 2007

Jimmy Carter: Gildi í útrýmingarhættu

Friðarverðlaunahafi Nóbels og 39 forseti Bandaríkjanna gaf nýlega út bókina, “Endangered Values: America's Moral Crisis”. Í bókinni dregur Jimmy Carter ályktanir út frá núverandi pólitískum áherslum og nýlegum breytingu í bandarísku samfélagi sem fyrrum forseti þjóðarinnar en ekki síst sem Kristinn maður.

Lesningin er stórgóð samantekt og sögurýni á nýlega atburði í heimssögunni en með gagnrýna naflaskoðun á Bandaríkin og þau fjölmörgu atriði í bandarísku samfélagi sem stinga óneitanlega í stúf og hvað þá fyrir aðila sem ólst upp suður með sjó á litla saklausa Íslandi.

Það sem vekur strax athygli eru tíðar tilvísanir í Kristin gildi og hvernig orð og athafnir þeirra sem telja sig hvað Kristnasta fara oft ekki saman og formgerast því í hræsni. Fyrirferð Kristinnar trúar er skiljanleg í ljósi þess hve þessi málaflokkur er fyrirferðarmikill í landinu svo ekki sé minnst á öfgafullar Kristnar skoðanir ýmissa ráðamanna sem eiga meira sammerkt með einstrengingslegri bókstafstrú en skynsemi og kærleika.

Carter ræðir á áhugaverðan hátt um mörg viðkvæm málefni líðandi stundar og tekst oft listavel að draga fram nýja áhugaverða fleti í umræðuna. Hvort sem það er dauðarefsingin, öxulþjóðir hins illa, umhverfismál, byssueign, menntamál, Guantanamo, skoðanahemjandi flokkslínur eða fóstureyðingar. Þá er bókin full af tölulegum staðreyndum og samanburði við önnur lönd sem styðja hans mál.

Ég vissi t.d. ekki að 90% dauðarefsinga í heiminum fara fram í fjórum löndum; Bandaríkin, Íran, Saudi Arabía og Kína. Sérstakur hópur það! Einnig verð ég að viðurkenna að ég fylltist ekki öryggistilfinningu búandi hér í New York þegar ég las töluna 30 þúsund um fjölda morða í BNA per ár. Í samanburði við tölur sem hönd er á festandi og maður skynjar s.s. íbúafjöldann á Íslandi þá samsvarar þetta 30 morðum á Íslandi á ári. Á Íslandi væri talað um borgarastyrjöld! Þegar Carter síðan tengir saman þessar staðreyndir eins og dæmin sem ég tók að ofan, þ.e. að óvíða er tíðni morða meiri á sama tíma og að óvíða eru dómar harðari þá verður til áhugaverð umræða.

Stórgóð og fræðandi bók um samtímann með sérstaka áherslu á bandarískt þjóðfélag með gleraugum friðelskandi fyrrum valdamanns sem er ekki par hrifinn af núverandi pólitískum áherslum sem hann líkir á stundum við bókstafstrú sem hefur sagt skilið við skynsemi.