Tuesday, June 26, 2007

Heimilislegur Alþjóðabanki

Í New York Times í dag er ágætis grein þar sem sagt er frá verkefnum nýs yfirmanns Alþjóðabankans, áskorunum hans og áherslum. Það sem er áhugavert við greinina finnst mér hins vegar tilefni greinarinnar en ekki endilega innihaldið. Tilefnið er að Robert Zoellick, hinn nýi bankastjóri var í gær kosinn bankastjóri af stjórn bankans. Kosinn af stjórn sem hefur formlegt vald til að ráða og reka bankastjóra sinn. En var það í raun stjórnin sem kaus?

Alþjóðabankinn er í eigu 185 aðildarríkja og veitir milljarða bandaríkjadala til lánveitinga til ýmissa ríkja. Kosning bankastjóra er eitt mikilvægasta verkefni stjórnar bankans enda um valdamikið starf að ræða. Þegar hinn bandaríski Paul Wolfowitz hrökklaðist frá sem bankastjóri vegna spillingarmála nýlega kom fram í fréttum að stjórn bankans ætlaði sér nægan tíma til að velja nýjan yfirmann. Sagt var frá því að stjórnin myndi taka við umsóknum fram til 15. júní og ákveða sig fyrir 30. júní, byggja á faglegri aðferðafræði um val og standa á faglegan hátt að ráðningu. Hvað gerðist?

Skömmu eftir fréttir um ætluð fagleg vinnubrögð stjórnar bankans tilkynnti Bush Bandaríkjaforseti hins vegar að hann hefði valið sinn fyrrum ráðgjafa í framboð sem eftirmann Wolfowitz. Nokkrar þjóðir mölduðu í móinn og þótti þetta nokkur yfirvöðslusemi en af fréttaflutningi að dæma var ljóst að ákvörðunin var í raun tekin af Bush enda er það víst opinbert leyndarmál að til staðar er "heiðursmannasamkomulag" á milli Evrópu og Bandaríkjanna um skiptingu valda í nokkrum alþjóðastofnunum. Bandaríkjamenn velja yfirmann Alþjóðabankans og Evrópuþjóðirnar fara með völdin í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Viðleitni einhverra fulltrúa aðildarríkja í stjórn bankans að breyta ríkjandi “heiðursmannasamkomulagi” gömlu stórveldanna gekk því ekki eftir. Sem sárabót verða þeir hinu sömu stjórnarmenn bara að sætta sig við að enn sem komið er mæta þeir á fundi og þiggja laun og fríðindi sem stjórnarmenn þó svo að ákvarðanir stjórnar séu í raun teknar af öðrum en stjórn.

Fyrir mann eins og mig sem kem frá Íslandi er þetta í raun afskaplega heimilislegt andrúmsloft í þessum alþjóðastofnunum enda ólst maður upp við helmingaskiptareglur í stjórnmálum sem þóttu jafnsjálfsagðar og þorskalýsið.