Monday, June 25, 2007

Gildi lýðræðis til sölu?

Íbúar Taívan vilja láta líta á sig sem sjálfstæða og fullvalda þjóð en eins og alkunna er þá eru Kínaverjar á allt öðru máli. Í augum kínverskra stjórnvalda er Taívan hérað í Kína sem er með uppsteyt. En hvað með hinar 193 viðurkenndu þjóðir heimsins - hvað segja þær og þá sérstaklega þær sem kenna sig við lýðræði? Fara orð, gildi þeirra og athafnir saman?

Eitt af mikilvægari gildum lýðræðislegra fylgjandi þjóða byggir á frelsi einstaklingsins og vilja meirihlutans. Í Taívan búa 23 milljónir manna og reglulega ganga þeir til þingkosninga til að kjósa sér sína fulltrúa í samræmi við þeirra stjórnarskrá auk þess sem þjóðin hefur 400.000 manna her. Það hljómar því varla sérlega lýðræðislega róttæk hugmynd að styðja þessar kröfur íbúanna. Þrátt fyrir þetta er stuðningur þjóða heimsins að rjátlast af Taívan. Nýjasta dæmið er Kosta Ríka sem ákvað að binda trúss sitt við Kína í stað Taívan. Kosta Ríka er áttunda landið frá árinu 2000 sem gefur eftir stuðning sinn við Taívan og styður þess í stað Kína. Í heild viðurkenna nú 23 þjóðir Taívan en 170 Kína.

Minnkandi stuðningur við lýðræðislegar kröfur Taívan virðist helst skýrast af auknum efnahagsumsvifum og mikilvægi Kína í heimsviðskiptum. Gildin víkja þannig fyrir efnahagslegum hagsmunum.

Ekki eru þó allir til í að selja gildi sín með þessu hætti en hin nýfrjálsa (1979) þjóð á St. Lucia viðurkenndi nýverið Taívan. Þrátt fyrir fækkun í hópi stuðningsþjóða vinnur Taívan að því að fá aftur aðild að Sameinuðu þjóðunum eftir að hafa misst aðildina til Kína 1971. Hætt er við því að sú barátta verði erfið enda líklegt að vægi Kína innan Sameinuðu Þjóðanna og valdið sem felst í neitunarvaldi þeirra innan Öryggisráðsins verði Taívan Þrándur í götu.

Stuðningur þjóða heimsins við grunngildi lýðræðis, sem var einnig val stuðningsmanna Chiang Kai-shek 1949 þegar þeir flúðu frá meginlandi Kína yfir til eyjunnar Formosa og mynduðu Taívan, virðist því nú boðin hæstbjóðanda þegar kemur að Taívan. Hæstbjóðandinn í því kapphlaupi var lengi vel Taívan en nú býður Kína einfaldlega fjárhagslega betur og þá víkja hin lýðræðislegu gildi.

Gildin eru augljóslega til sölu!